Leitarvélin Kvistur


Kvistur
starfar líkt og leitarvélar Internetsins en leitar þó ekki á vefsíðum heldur í gagnagrunni greina er birst hafa í prentuðum fræði- og vísindaritum.

Nokkur lykilatriði

 • Kvistur var formlega opnaður á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 3. nóvember 2006 og kallaðist þá „Leitarvél íslenskra fræða“. Núverandi nafn sitt fékk hann í janúar 2007.
 • Nýsköpunarsjóður námsmanna, Málvísindastofnun Háskóla Íslands og Hagþenkir styrktu þróun og gerð Kvists.
 • Kvistur er í stöðugri þróun. Gerður hefur verið samningur við Hugvísindastofunun Háskóla Íslands um kynningu og útbreiðslu Kvistur.
 • Hugvísindastofnun Háskóla Íslands er samtsvarsaðili Frœða efh. um þróun og útbreiðslu Kvists og mælir með honum á öllum sviðum Hugvísinda.
 • Höfundarréttur er virtur í Kvisti. Greinar eru því aðeins birtar í heild sinni að samþykki höfundarréttarhafa og útgefanda liggi fyrir. Að öðrum kosti er birtur örstuttur textabútur utan um leitarorðið en stundum einnig útdráttur.
 • Í ársbyrjun 2007 voru 351 grein eftir 154 höfunda skráðar í Kvist; auk þess 17 ritdómar og 63 ritfregnir ásamt 74 pistlum um íslenskt mál.
 • Samtals 1.889.035 orð voru í gagnagrunni Kvists í janúarbyrjun 2007. Greinarnar koma úr 38 tölublöðum 6 ritrýndra tímarita en nokkrum stökum ritum og blaðapistlum til viðbótar. Meðalstærð hvers tölublaðs er um 200 blaðsíður.
 • Stækkunarmöguleikar kerfisins eru nær ótakmarkaðir. 
 • Kvistur er vistaður á vef Fræða ehf. - www.fraedi is. Hann hefur einnig verið felldur inn í vefi Íslenska málfræðifélagsins, Málvísindastofnunar Háskóla Íslands og Félags íslenskra fræða.
 • Enn sem komið er eru einkum greinar um málvísindi í Kvisti en einnig er nokkuð um bókmenntafræði. Greinarnar koma úr tímaritunum Íslensku máli og almennri málfræði, Íslenskri tungu - Lingua Islandica, Orði og tungu, Málfregnum, Hrafnaþingi og Són.
 • Kvistur er hannaður til að þjóna öllum hugvísindagreinum, t.a.m. sagnfræði og heimspeki en einnig greinum utan hugvísinda.

 

Leit í Kvisti

Í núverandi útgáfu Kvists er eingöngu leitað eftir textastreng en ekki heilum orðum eins og tíðkast til að mynda í Google. Þannig skilar leitarstrengurinn ‘örnefn’ greinum sem innihalda orðmyndirnar ‘örnefni’, ‘örnefnum’, ‘fleirtöluörnefnum’ og svo framvegis.

Fljótlega verður einnig hægt að leita í Google-stíl þar sem leitað er eftir heilum orðum, rökliðirnir ‘og’ og ‘eða’ nýttir og gæsalappir afmarka samfelldan leitartexta. Áfram verður þó unnt að leita eftir textastreng enda sakna margir fræðimenn þess eiginleika í Google og öðrum leitarvélum.
Í nákvæmu leitinni er enn aðeins hægt að þrengja leit eftir höfundum og útgáfuári en fljótlega veður tímaritum og efnisflokkum bætt í það val.

Sé smellt á titil greinar fást nánari upplýsingar um hana, mismiklar þó eftir því hvort leyfi hefur fengist til birtingar í heild, hvort útdráttur liggur fyrir eða hvort eingöngu bókfræðilegar upplýsingar séu í boði. Litaðir ferningarnir framan við titla greinanna segja til um það.

Bókfræðilegar upplýsingar úr Gegni fást með því að smella á táknmynd hans.

Sértákn og stuðningur við staðla í Kvisti

Mikilvægt er að gæta þess við textavinnslu í tölvum að leturtákn séu skráð með stöðluðum hætti. Dæmi um slík tákn eru:

 • Stafréttir og staftáknréttir handritatextar
 • Hljóðleturstákn
 • Rúnaáletranir
 • Önnur stafróf, t.d. grískt, kýrilskt o.s.frv.


Alþjóðastaðallinn til þessara nota heitir Unicode en fáir notendur eiga Unicode-samhæfðar leturskrár (fonta) sem innihalda öll nauðsynleg tákn. Auk þess vantar enn í Unicode-staðalinn allmörg mikilvæg tákn stafréttra handritatexta. Því styðjast fræðimenn oft við sértækar lausnir sem gera það að verkum að textarnir nýtast illa eða ekki í öðum tölvum en þeir voru skráðir. Í Kvisti eru allir textar samæfðir Unicode og fagstaðlinum MUFI (www.mufi.info) sem segir til um notkun tákna utan Unicode.

Kvistur notar sk. „font embedding“ til að birta texta, þannig að vefnotandi þarf ekki að hafa sérstakar leturskrár með sértáknum í tölvu sinni.

Get ég fengið mitt tímarit skráð í Kvist?

Já, markmiðið með Kvisti er einmitt að byggja upp umfangsmikið greinasafn.  Vinna við skráningu greina er mismikil og fer eftir því á hvaða sniði tölvutækur texti er til.  Sé hann ekki til þarf að textaskanna prentað mál.  Það er vitaskuld meiri vinna en það höfum við þó gert í töluverðum mæli.  Ef þú hefur áhuga á að kynna þér Kvist nánar og fá tilboð í skráningu greina í leitarvélina, hafðu þá samband við Bjarka M. Karsson: bjarki(að)fraedi.is.